Hvaða leið vilt þú fara?

Þegar þú þarft að taka mikilvægar ákvarðanir skaltu leita að svörum innra með þér. Þú veist alltaf best hvað þér er fyrir bestu, hvaða leið þú vilt fara í lífinu og hvaða áfangastöðum þú vilt ná. Það er alltaf gott að þiggja ráð hjá öðrum en ekki falla í þá gryfju að hlusta eingöngu á ráðleggingar annarra án þess að vega þau og meta við hvað innsæi þitt segir þér.Krossgötur

Ef þú hefur misst tengsl við innsæi þitt þarftu að hlúa aftur af þeim tengslum. Góð leið til þess er að gefa þér stund á hverjum degi, helst í upphafi dags, til að setjast niður í þögn. Þar lokarðu augunum og dregur athyglina inná við. Dregur andann djúpt nokkrum sinnum og situr svo í þögninni um stund. Leyfir huga þínum að reika án þess að veita hugsunum athygi, lætur andardrátt þinn minna þig á að þú ert andi, sál í leit að efnislegum ævintýrum til að þroska þig svo þú megir njóta frelsis til að stækka, frelsi til að breiða út kærleika meðal manna. Þegar þú finnur þinn innsta, tærast kjarna, nærðu tengingu við Guð innra með þér, kærleiksljósið eina og eilífa. Leyfðu ljósinu að flæða um líkama þinn og sjáðu fyrir þér geisla ljóssins streyma út frá þér þannig að í samskiptum þínum við menn og dýr geti allir fundið kærleikann sem þú hefur að geyma. Slík útgeislun hjálpar öðrum að tengjast ljósinu innra með sér og finna uppsprettu kærleikans innra með sér.

Gakktu hvern dag á Guðs vegum, leyfðu kærleikanum að umvefja þig og ljósinu að leiða þig, þá mun allt fara vel og þú nærð að fylgja hjarta þínu.


Allt er í fullkomnu jafnvægi

Nú er vor í lofti. Sólin farin að ylja, fuglarnir farnir að syngja og Lóan hefur kvatt burt snjóinn. Friðsæld og fegurð náttúrunnar minnir okkur óneitanlega á sköpunramátt Guðs. Allt er í fullkomnu jafnvægi. Náttúran leitast ávallt eftir jafnvægi en er í leiðinni í flæði. Stöðnun er ekki heilbrigt ástand, hvorki í náttúrunni né hjá þér. Þegar þú finnur að líf þitt hefur staðnað á einhvern máta skaltu leitast við að koma því aftur í flæði. Lífið á að vera í flæði, stíflur og hindranir eru merki um óheilbrigt líf.Fugl í hreiðurgerð

Notaðu andardrátt þinn til að koma flæði af stað í staðnaðir orku innra með þér, notaðu hreyfingu líkamans til að koma af staðnaðri orku í liðamótum og vöðvum. Hleyptu lífi, fegurð og birtu inn í líf þitt með því að taka til heima hjá þér, skipta út gömlum munum fyrir aðra sem leynast kannski inn í skáp og passa betur nú þegar sólin og birtan leikum um allt. Farðu í gengum fataskáp þinn og búðu til rými þar með því að gefa frá þér fatnað sem þú ert löngu hætt/ur að hafa not fyrir.

Einfaldaðu líf þitt eins og þú mögulega getur. Hleyptu nýrri orku í allt sem þú tekur þér fyrir hendur. Leyfðu þér að finna fyrir frelsi og tilhlökkun vorsins þegar allt byrjar aftur að springa út. Leyfðu þér að springa út í leiðinni, fljúgðu um og syngdu eins og fugl í hreiðurgerð.


Þinn innri styrkur

Styrkur þinn eflist þegar þú finnur fyrir tengingu þinni við hið æðsta ljós. Þegar þú finnur hve mikill styrkurinn er, hve mikill mátturinn er, eflist þor þitt og hugrekki til að vera þú sjálf/ur.Hafnarfjall

Þú finnur að þú ert aldrei ein/n, almættið er alltaf þér við hlið og styður þig í þeim ákvörðunum sem þú tekur. Ef þér finnst þú missa mátt og styrk geturðu ímyndað þér að þú sért tignarlegt fjall. Fjallið býr yfir styrk sem þú býrð einnig yfir. Það er sama hvað á bjátar, fjallið lætur ekkert á sig fá, það haggast ekki, hvernig sem viðra.

Finndu þinn innri styrk með allri þeirri hjálp sem þú hefur tök á að fá, frá æðri mætti og innri vissu um að þú sért að þjóna ljósinu mannkyninu til góðs.


Lífið er leikur sem þú átt skilið að njóta

Alla ævi þurfum við að taka til í hjörtum okkar. Lífið færir okkur alls kyns verkefni sem hafa áhrif á tilfinningalíf okkar og sumar tilfinningar hafa tilhneigingu til að sitja eftir í líkamanum. Hamlandi tilfinningar eins og reiði, skömm, sektarkennd og höfnun draga úr okkur. Því er nauðsynlegt að staldra við öðru hvoru og taka til innra með sér. Leyfa athyglinni að beinast inn á við og skoða skugga okkar og íþyngjandi tilfinningar og vega og meta hvað við viljum gera til að halda áfram.Hrafnhildur í roki

Er kominn tími til að fyrirgefa?

Er kominn tími til að sleppa taki?

Er kominn tími til að hlúa að blæðandi sári?

Finndu leið sem hentar þér til að vinna með tilfinningar þínar. Kannski viltu skrifa niður það sem bærist innra með þér. Kannski viltu ræða við einhvern um líðan þína. Kannski viltu hleypta tilfinningum þínum upp á yfirboðið með öðrum hætti. Sumum reynist gott að vera í einrúmi úti og sjá fyrir sér tilfinningarnar hverfa á huglægan hátt. Öðrum finnst gott að vera úti í náttúrunni, standa við ólgangdi hafið eða fá líkamlega útrás með einhverjum hætti. Hvað sem hentar þér er rétt leiðin fyrir þig. Notaðu afmarkaða stund til að vinna úr tilfinningum þínum og haltu svo áfram léttari í lund.

Lífið er leikur sem þú átt skilið að njóta. Ekki láta fortíðina draga úr þér, sáðu fræjum í dag sem þú vilt uppskera í framtíðinni. Finndu tilhlökkun í hjarta þínu til að mega vaxa og þroskast. Tilhlökkun til að njóta lífsins með öllum þeim ákorunum sem það færir þér. Þú ert sterkari en þú virðist, hugrakkari en þú sýnist og klárari en þú heldur.


Að tengjast ljósinu

Ljósið kemur innan frá, þegar þú hefur náð að tengjast ljósinu að ofan. Geislar þess streyma í gegnum þig til annarra. Hleyptu ljósinu óhindrað í gegn. Þú átt ekki að stoppa það.Himneskt ljós

Mættu hindrunum með opnu hjarta. Taktu eftir hvernig þú bregst við og lærðu að temja þér elsku í garð annarra. Mótlæti og hindranir eru alls staðar en það er þitt að yfirstíga þær og halda einbeitt/ur áfram í átt að þínu markmiði, fylgja þínum tilgangi. Fylgdu þínu innra ljósi.

Haltu einbeitingu hvað sem á dynur. Þú þarft að nálgast kærleikann í gegnum hjarta þitt. Hann er óendanlega mikill en þú þarft að vilja hleypa honum inn.


Elska Guðs

Leyfðu þér að taka á móti elsku Guðs. Elska Guðs er endalaus kærleikur í sinni tærustu og fegurstu mynd. Þegar þú meðtekur þann guðlega kærleika umbreytist hjarta þitt til frambúðar. Þú munt ekki sjá veröldina í sama ljósi og áður.Hjarta hendur

Allt líf jarðar ber með sér ljós Guðs og er samtengt. Þegar þú réttir öðrum hjalparhönd ertu að veita sjálfri/um þér gjöf því allt sem þú gerir öðrum gerirðu þér. Hleyptu kærleika inn í líf þitt og hjálpaðu þannig samfélaginu að öðlast dýpri skilning á elsku Guðs. Guð elskar alla jafnt því allt er afsprengi Guðs. Guð gætir okkar eins og móðir gætir barna sinna. Guð styður okkur líkt og faðir styður börn sín. Guð er umhyggjusamt foreldri sem vill börnum sínum og allri sköpun sinni það allra besta.

Hjálpaðu Guði að gera heiminn að betri stað. Hjálpaðu ljósinu að eflast. Hjálpaðu kærleikanum að fylla hjörtu allra.


Upprisan

Upprisan er táknmynd þeirrar vonar sem þér er færð í formi trúar á að það góða sigri hið illa. Þegar þú finnur vonina bærast í brjósti þínu lyftist sál þín upp til móts við Guð.upprisan

Krafturinn sem þú býrð yfir er af sama meiði og sá kraftur sem Kristur bar í sínu brjósti. Krossfesting hans, þjáning, dauði og upprisa færir þér vitneskju um að sálin lifir þó líkaminn deyji. Sálin rís upp til ljóssins. Kristur kenndi okkur að efast ekki heldur trúa, því hann vissi betur en nokkur annar hvað er handan þessa heims. Guð fylgir þér í hverju skrefi, verndar þig og blessar.

Upprisa þín felst í að treysta á handleiðslu Guðs í einu og öllu. Sú umbreyting sem getur átt sér stað í mannsálinni við það eitt að trúa færir ljósið nær jörðinni, nær þeim sem þurfa hvað mest á því að halda.

Myrkrið verður alltaf til staðar bæði innra með þér og í kringum þig, en ef þú hefur ljós, bæði til að fylgja og innra með þér, muntu rata leiðina heim. 


Svörin búa í þögninni

Handleiðsla Guðs fer fram í þögninni. Í þögninni finnurðu svör við öllum þínum erfiðustu spurningum. Á hverjum degi skaltu gefa þér stund þar sem þú ert ein/n með sjálfri/um þér og gerir ekkert nema að hlusta á þögnina.Ský

Lærðu að hlusta eftir svörunum sem búa í þögninni. Svörin geta birst þér í myndformi, í orðum, hljóðum eða tilfinningu. Hvernig tákn Guð notar til að tjá sig þannig að þú skiljir fer eftir dagsformi þínu og innri ró. 

Þegar þú þjálfar þig í að taka á móti leiðsögn Guðs skaltu sitja á rólegum stað þar sem ekkert áreiti nær að trufla þig. Dragðu athygli þína að andardrættinum og æfðu þig í að sleppa taki af hugsunum þínum. Þegar ró hefur færst yfir hugann þá nærðu tengingu við sál þína. Hún getur meðtekið boðskap Guðs. Persónuleiki þinn getur þvælst fyrir fyrst um sinn sem og rökhugsun þín en ekki gefast upp því þolinmæði þrautir allar vinnur.

Að temja huga sinn er ein mikilvægasta þraut sem þú stendur frammi fyrir. Ekki vanmeta mátt þinn og megin til að sjá, heyra og skynja það sem er handan við þá veröld sem þú lifir í nú. Efnisheimurinn er aðeins hluti af þeim heimi sem raunverulega er til. Þegar hinn andlegi heimur opnast fyrir þér muntu skilja betur hlutverk efnisheimsins því hann er afsprengi hins andlega heims.


Þjáning Krists

Kristur-á-krossiÞjáning Krists var frelsun fyrir mannkynið. Krossfestingin táknar þá miklu umbreytingu sem verður þegar dauðinn tekur við. Kristur sýndi mönnum að dauðinn er aðeins umbreyting, sálin lifir í ljósinu. Þegar þú hleypir Kristi í líf þitt muntu sjá og skilja máttinn sem guðsorkan býr yfir. 

Sorgin, vonleysið og sú átakanlega sýn þegar Jesús Kristur var á krossinum var mönnum nánast óbærileg. Illskan sem mennirnir leyfa sér að sýna í garð náunga síns getur tortímt mennskunni ef ekki er gætt að því að hlúa að innra ljósi. Á degi sem þessum er gott að minna sig á þá gjöf sem Kristur gaf mannkyninu. Hann gaf okkur von. Von sem við berum í brjósti okkar, von um betra og friðsælla líf.

Verði þinn vilji svo á jörðu sem á himnum, kenndi Jesús en þó getur enginn annar en við sjálf fært himnaríki í okkar líf. Krossfestingin minnir okkur á að lífið er eilíft. Þjáningar taka enda og eftir myrkur kemur ljós. Ljósið er og verður alltaf sterkara en myrkrið. Kærleikur býr í brjósti okkar en alltof fáir hleypa kærleikanum upp á yfirborðið og sýna hann samferðamönnum. Kærleikur er eini gjaldmiðillinn á himnum. Verk okkar eru vegin út frá því hve mikinn kærleika við höfum borið til náungans. Allt annað er einskis virði.

Leyfum páskahátíðinni að ylja okkur um hjartaræturnar. Hleypum ljósi Guðs inn í líf okkar og leyfum fallega gula litnum sem páskarnir bera minna okkur á það gyllta undurfagra ljós sem er í ríki Guðs. Upprisa sálarinnar er allra, ekki aðeins fyrir fáa útvalda. Leyfðu sál þinni að rísa upp í lifanda lífi og gerðu góðverk á hverjum degi. Sálin verður tærari og hreinni með hverju góðverki sem þú gerir og kærleiksrík sál er demantur í ríki Guðs. Páskarnir eiga að minna okkur á að sálin er eilíf, kærleikurinn er sá kraftur sem verkar á allt og alla og trúin sem við höfum bæði á menn og Guð hjálpar okkur til að skapa guðsríki á jörðu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband